6.7.2008 | 00:21
3ja umferð Íslandsmótsins í rallý - úrslit eftir bókinni
Góða kvöldið.
Í dag fór fram á Snæfellsnesi þriðja umferð Íslandsmótsins í rallý. Keppendur og aðrir fengu yndislegan dag með sól og blíðu blandaða við takmarkalausa náttúrufegurð í kringum jökul.
Úrslit keppninnar voru í takt við þann hraða sem keppendur hafa sýnt í sumar - og merkilegt nokk gekk keppnin nær áfallalaust fyrir sig hjá flestum áhöfnum.
Því fór að loksins náðu Jón Bjarni og Borgar að landa sínum fyrsta sigri í rallakstri - eftir vægast sagt brösótta byrjun á mótinu. Var sigurinn fullkomlega verðskuldaður því þeir sýndu jafnan og góðan akstur alla keppnina. Við óskum þeim sérstaklega til hamingju með daginn.
Rétt tæpri mínutu á eftir þeim komu svo Sigurður og Ísak - en þeir háðu harða baráttu við sigurvegarana framan af keppinni en fataðist svo flugið á leið um Jökulháls þar sem þeir óku útaf og töpuðu nokkrum tíma. Eftir þetta vörðu þeir annað sætið en aðeins rétt svo því Pétur og Heimir sem leiða Íslandsmótið komu aðeins 22sek á eftir þeim eftir fumlausan akstur í dag. Leystu þeir verkefni dagsins með prýði en forysta þeirra er nú sex stig þegar mótið er hálfnað.
Valdi kaldi náði á undraverðan hátt að halda fjórða sætinu eftir ótrúlega margar útafkeyrslur - en bíll hans minnti eftir keppnina frekar á slysaauglýsingu umferðarráðs en hraðskreiðan rallýbíl. Náðist nokkuð skemmtilegt myndefni af lautarferð hans og verður það birt hér á vefnum innan tíðar.
Marri og Ásta enduðu í fimmta sæti - en Ásta leysti Jón Þór af á síðustu mínutu. Olli þetta því að hraði Marra var ekki sá sami og í fyrri tveimur umferðunum - en hann hafði aldrei æft eða ekið með systur sinni áður í keppni. Má því segja að árangur þeirra sé mjög góður þ.e að renna blint í sjóinn og klára keppnina með óskaddaðan bíl (jú, einn útafakstur til að rústa taugum DS )
Páll Harðarson og Aðalsteinn sýndu mikil tilþrif á sínum heimaslóðum en sprungið dekk kostaði tíma. Þó voru þeir með öruggt fimmta sætið fyrir síðustu leið keppninnar en gerðu þau ótrúlega klaufalegu mistök að mígandi þjófstarta inn á leiðina - en fyrir slíkt fæst einnar mínútu refsing sem færði Marra og Ástu upp fyrir þá. Enginn vafi er á réttmæti þessara refsingar því vitni voru fjölmörg og þar með talinn rafræn - en fyrst og síðast er þetta klaufalegt hjá Páli og Aðalstein eftir fantaakstur í keppninni.
Aðeins tvær áhafnir féllu úr leik í keppninni. Fyrst fór mótor í toyotu bifreið Hennings án tilefnis. Svo féllu þeir Jóhannes og Björgvin úr leik eftir að afturhjól brotnaði undan Mitsubishi bíl þeirra. Jóhannes hafði þær skýringar að sennilega hefði verið um gamalt þreytubrot í spyrnu komið fram þegar bílllinn lenti harkalega í holu eftir vafasama leiðanótu. Tjónið er þó ekki mikið og er gert ráð fyrir báðum þessum áhöfnum galvöskum í næstu umferð Íslandsmótsins sem fram fer í Skagafirði eftir þrjár vikur.
Gerða - Díana og Tinna fylgdu gamla manninum í dag vopnaðar myndavélum og vídeóvélum - mun vonandi afrakstur þess birtast hér von bráðar.
Bestu þakkir til starfsmanna, keppenda og heimamanna fyrir skemmtilegan dag.
DS
Athugasemdir
Takk fyrir daginn um daginn bílstjóri og sætu stelpur!
Mér finnst þessi mynd af Pétri og Heimi geeeeeeggjuð !!!
Día (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 01:29
já, það var alveg þess virði að skella sér í rykið á síðustu leið
Gerða (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 09:08
Flottar myndir og flott umfjöllun.
Elvar Örn Reynisson, 10.7.2008 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.