Akstursíþróttakappinn Daníel Sigurðarson

Um okkur:  

 

Daníel Sigurðarson hefur keppt í rallý frá árinu 1998 og unnið flesta mögulega titla á Íslandi síðan þá. Hann varð Íslandsmeistari í heildarkeppninni á sínu fyrsta ári á fjórhjóladrifsbíl árið 2006 og varði titilinn árið 2007. Hann var einnig útnefndur akstursíþróttamaður ársins 2006.

Daníel hóf einnig keppni í Bretlandi árið 2007 með það fyrir augum að safna sér reynslu til að keppa þar í til sigurs í nánustu framtíð. Keppti hann í sex keppnum og vakti grimmur akstur hans strax athygli rallýspekúlanta og fjölmiðlamanna þar í landi. Framhaldið var eftir því og hefur Daníel náð verðlaunasætum ítrekað í Bretlandi og vakið verðskuldaða athygli fyrir akstur sinn, áræði og jákvæða aðkomu að íþróttinni.

 Daníel fæddist í Reykjavík árið 1976 og er sonur Sigurðar Ingva Snorrasonar og Manuelu Wiesler. Hann starfar sem verktaki í byggingariðnaði, er ókvæntur og barnlaus.  

 

Ásta Sigurðardóttir hefur keppt í rallý frá árinu 2006. Þegar hún var aðeins sextán ára gömul fékk hún að keppa með bróður sínum Daníel í einni keppni. Keppnina sigruðu þau systkynin og með því varð ekki aftur snúið fyrir hana úr aðstoðarökumannsstólnum. Með Íslandsmeistaratitlinum það árið varð hún yngsti meistarinn frá upphafi og jafnframt fyrsta konan sem hampar þeim titli. Hún sat svo við hlið bróður síns þegar þau vörðu titilinn árið 2007 ásamt því að keppa með honum 3 keppnir í Bretlandi.

Ásta hefur vakið mikla athygli í Bretlandi – aðallega fyrir ungan aldur, íslenskt útlit og bleikan hárlit sem hún kaus að skreyta sig með í keppnum þar í landi. Gengur hún undir nafninu “Pinky” í breska mótorsportheiminum. Ásta fæddist í Reykjavík árið 1989 og er dóttir Sigurðar Ingva Snorrasonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hún starfar hjá Olís/Ellingsen við afgreiðslustörf.  

 

Ísak Guðjónsson hefur keppt í rallý frá árinu 1993 og unnið fjölda titla á Íslandi síðan þá. Hann varð Íslandsmeistari aðstoðarökumanna árið 2005 við hlið Sigurðar Braga Guðmundssonar. Ísak keppti með Daníel í þremur keppnum í Bretlandi á síðasta ári. Ísak fæddist í Reykjavík árið 1976 og er sonur Guðjóns Vilinbergssonar og Rannveigar Ásgeirsdóttur. Hann starfar hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar og er í sambúð með Rut Ólafsdóttur og eiga þau tvö börn.

 

Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Daníel Sigurðsson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband