20.3.2008 | 17:40
15 dagar í Bordercountiesrally 2008 - 2.umferðin í Bresku Evo-challenge meistarakeppninni
Kæru lesendur.
Nú styttist óðum í næstu umferðina í mótaröðinni okkar og er undirbúningur á fullu. Eins og sást í fyrstu umferðinni þá er samkeppnin gríðarlega hörð og voru til dæmis 7 mismunandi áhafnir sem áttu hraðasta tíma um sérleiðirnar 13 í Sunseeker.
Border rallið er allt öðruvísi - Bretar segja að þetta rall skilji mennina frá drengjunum því leiðirnar séu geysilega krefjandi og þröngar. Við kepptum í þessu ralli fyrir ári síðan og kunnum ágætlega við leiðirnar en þeim svipar svolítið til Íslenskra sérleiða, mjög hraðar og þröngar með töluverðu veggripi ef það verður þurrt.
Lengi vel leit út fyrir að Íslendingar myndu eiga tvær áhafnir í þessari keppni en þeir félagar Jón og Borgar ætluðu að fara með nýja bílinn sinn út og keppa í þessari keppni til að öðlast reynslu og undirbúa sig fyrir komandi Íslandsmót - en því miður gekk það ekki eftir.
Segja má að við séum búnir að undirbúa þetta rall stanslaust síðan í febrúar og ætti form okkar að vera með besta móti í þessari keppni - enda stefnum við á sigur og ekkert annað. Keppnisbíll okkar er reyndar enþá á gjörgæslu eftir dularfulla bilun í síðustu keppni. Því miður þá var ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýjan gírkassa með öllu - ansi stór biti það - en standa vonir til að drifrásin haldi út keppnistímabilið.
Nokkur hópur fólks ætlar að koma til skotlands á fylgjast með keppninni bæði af áhuga sem og fyrir ritmiðla og sjónvarp. Er því von um nokkuð gott upplýsingaflæði meðan á keppninni stendur bæði hér á síðunni sem og á mbl.is
Að lokum er rétt að óska lesendum gleðilegra páska og þakka fyrir áhugann og stuðningin.
DS
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.