Ævintýrið okkar - Stiklað á stóru um þátttöku okkar í Heimsmeistarakeppninni Rally GB

Jæja – seint og síðar meir finn ég frið til að setja niður nokkrar línur um ævintýrið um síðustu helgi þar sem við reyndum fyrir okkur í heimsmeistarakeppninni í rallý – hafi það farið framhjá einhverjum J  

 
194 7969

Billinn tryggilega merktur íslenska fánanum  

Ferðin út hófst á Cambrian rallinu sem við ætluðum okkur eingöngu til upphitunar og til að stilla saman strengi fyrir stóru keppnina. Dagskipanin var einföld: Engin service, engin stopp, engin dekkjaskipti og allt látið líta út fyrir að um einn hluta stóru keppninnar væri að ræða.  Ekki voru heilladísirnar með okkur í þessari æfingakeppni því að risastór steinn á miðjum veginum beygði afturhjólabita og gerði það að verkum að afturdekk bílsins voru útskeif um ca 4cm – með skiljanlegum erfiðleikum við stjórn bílsins í framhaldinu. Á lokaleið rallsins sprakk svo að aftan hjá okkur þannig að við fengum æfingu í að skipta um dekk einnig.   Jæja, verklistinn fyrir stóra rallið var langur og var rokið til strax á sunnudeginum og farið að rífa bílinn. Í stuttu máli var skipt um: Kúpplingu, svinghjól, alla öxla, top-mount, hjóllegur og nöf, demparar þjónustaðir og síðast en ekki síst sett nýtt pústkerfi – sem átti eftir að verða afdrifarík aðgerð.  Við fengum tvo daga til að leiðaskoða 350km og fengum tvær ferðir um hverja leið og allt gekk eins og í sögu.

Á fimmtudag kom keppnisbíllinn niður til Cardiff og við fórum í keppnisskoðun með grænt ljós allstaðar og spennan að ná hámarki. Um kvöldið var formleg ræsing á rallinu þar sem við ókum í fullum skrúða yfir rásmark í miðbæ Cardiff að viðstöddu fjölmenni og þar á meðal tugir Íslendinga sem fylgdu okkur alla leið í ævintýrinu. Var kynnirinn á því að allir eyjaskeggjar hlytu að vera mættir til Cardiff því fagnaðarlætin voru ótrúleg og var mál manna að Hirvonen og Loeb hefðu staðið í skugganum af Íslendingum þetta kvöld J  

  
194 7964
194 7953

Í rásmarkinu í Cardiff  

Föstudagsmorgun og nú var það alvaran og ekkert annað. Bíllinn á undan okkur með rásnúmmer 69 var 2005 módel af Ford Focus WRC  - bíll sem á að vera amk 4sek pr mílu hraðari en okkar bíll og algerlega geðveik græja. Ekki lét ég mig dreyma um að ná honum þannig leiðin átti að vera greið. Við ræsum inn og eftir 11 km af 25 náum við honum. Maðurinn greinilega kunni ekkert að keyra og við töfðumst töluvert fyrir aftan hann áður en hann hleypti okkur frammúr. 27 besti tími yfir heildina og við áttum nóg inni fyrir utan tafirnar vegna bíls 69. Ég pakkaði saman reiðinni og gekk að bílstjóranum sem hafði tafið okkur, kynnti mig og þakkaði honum fyrir að hafa hleypt okkur „greiðlega“ frammúr – í von um að hann myndi kannski vera athugulli næst um hvort við værum komnir aftan að honum.  

194 8214

 

194 8222

Vel tekið á því í sweet lamb - sérleið 2 

Leið 2 var frekar stutt og því útilokað að við myndum ná bílnum á undan okkur. Vondar minningar einkenndu akstur okkar því þetta var sama leið og við nærri veltum á í Mid – Wales rallinu í sumar , en samt náðum við 21 besta tíma og vorum nokkrum sek frá hraðasta tíma N4.  Hrottalega gaman og þvílíkt magn áhorfenda, íslenski fáninn og ekkert nema hamingja í Sweet lamb.  Leið 3 var mjög löng og þekktum við hana vel. Nú var að vona að bíll 69 myndi hleypa okkur greiðlega frammúr þegar við myndum ná honum sem við gerðum mjög hratt. Reyndar var farið að hægja á okkur þegar við náum honum vegna leks vökvastýris hjá okkur – en þegar sérleiðin var hálfnuð vorum við komnir að bíl 69. Í stuttu máli þá hleypti hann okkur ekki frammúr, bara alls ekki. Við reyndum að fara þétt að honum, flauta og blikka ljósum en allt kom fyrir ekki og þegar framrúðan okkar brotnaði við tilraunirnar þá ákváðum við að halda okkur 50m fyrir aftan hann og freista þess að hann sæi okkur. En nei, ekki fyrr en í næstsíðustu beygju sérleiðarinnar hleypti hann okkur frammúr og þið getið rétt ímyndað ykkur hitastigið inn í bílnum okkar! Þvílík framkoma og óíþróttamannlegheit – eitthvað sem við höfðum aldrei kynnst á ævi okkar áður. 27 besti tími og það sagði okkur hvað hefði getað orðið með hreinni leið.  

Nú fengum við loksins 15 mín service og gátum lagað vökvastýrið og annað smálegt sem var að. Þegar tími okkar var við það að líða þá verður einn var við að púst bílsins var farið að liggja utaní og sjáum við að nýju fínu pústupphengjurnar sem keyptar höfðu verið í vikunni voru að BRÁÐNA. Á tveimur mínútum var gert það sem hægt var að herða pústið og svo urðum við að rjúka út til að fá ekki tímarefsingar.        

194 8816
 
194 8325 

Þjónstuhlé og stuðningsmannahópurinn bíðandi í eftirvæntingu inn á leið

Leið 4 var sama leið og leið 1 í rallinu og nú var bíll 69 loksins ekki fyrir framan okkur og leiðin greið í topp tíma. 5-4-3-2-1 BÚMMMMM ... Um leið og við þeystum að stað úr rásmarkinu varð rosa hávaði og okkur ljóst að pústkerfið hafði farið í sundur eða eitthvað.  Ekkert amaði þó að bílnum fyrir utan smá aflminnkun þannig við þeystum áfram í hávaðanum. Eftir smá stund heyrði ég í Andrew segja „ i cant see“ og voru leiðarnótur orðnar stopular fram að því. Ég kenndi ónota í augum líka en ekkert alvarlegt. Þegar hann stundi „I can´t breath“ þá ákvað ég að stoppa og kanna hvað væri í gangi – en þarna var farið að bera á smá reyk í ökumannsrýminu og vildi ég fyrst og síðast fullvissa mig um að enginn eldur væri laus.

Eftir stutta skoðun á bílnum sá ég að aðeins vantaði 50cm bút aftast á pústið þar sem hljóðkútur hafði verið – og við ákváðum að halda áfram. 22km eftir af leiðinni og alltaf magnaðist óloftið í bílnum. Við ókum mjög rólega, létum bílinn renna niður brekkur og slíkt en þegar 7km voru eftir af leiðnni gjörbreyttist alllt og ljóst að bíllinn var farinn að pústa beint inn í sig. Hitinn og súrefnisskorturinn var með eindæmum og ég spurði Andrew regluega hvort væri í lagi með hann – og hann svaraði – meðan hann var að bisa við að halda hurðinni opinni sín megin. Þegar aðeins nokkrir kílómetrar voru eftir af leiðinni þá tókst honum að rífa hurðaopnarann lausan sín megin og eftir það var ekki hægt að opna hurðina, hvorki innan né utanfrá. Loksins sást endamarkið og mín síðustu skilaboð til Andrew voru, „try to breath as little as possible“ ! 

Í endamarki var liðið yfir hann – ég lagði útí kannti, barði í brjóstkassan á stóra manninum og öskraði á læknishjálp og súrefni – sem ég vissi að var í endamarkinu. Kallinn saup hveljur og sýndi lífsmark – en datt jafnharðan út aftur. Þegar menn verða fyrir eitrun verða þeir gulir.. gulir eins og sólin – sem er mjög óhugnarlegt. Ég sat þarna og beið eftir helvítis seinvirku Bretalæknunum sem dröttuðust svo loksins með súrefniskútinn að bílnum og ég náði að setja grímuna á Andrew og halda honum með meðvitund. Þarna komumst við að því að hann var fastur í bílnum því hurðina hafði hann skemmt á leiðinni og því ekki hægt að komast að honum eða koma kallinum út hans megin. Eftir tilraunir við að skrúfa hurðina í sundur og mælingar þess efnis að hann kæmist aldrei út um gluggan tók ég á það ráð að draga hann út bílstjóramegin, yfir veltibúr og allt heila klabbið. Það tókst með herkjum og þarna gátu sjúkraliðar tekið við. Þyrla var á leiðinni og Andrew fékk adrenalín í æð til að örva andadráttinn – áður en honum var komið fyrir á sjúkrarúmi.

 Ég veit ekki hvort ég eigi að vera reiður eða þakklátur – sennilega bara blanda af hvoru tveggja, en ég þakka amk guði fyrir að íslenska landhelgisgæslan og slökkviliðið hérlendis eru alvöru fagmenn – eitthvað sem kollegar þeirra í Bretlandi vita ekki hvað er. Þyrlan var klukkutíma á leiðinni því hún var villt?  Og svo loksins þegar hún kom þá var stressið svo mikið við að fá fuglinn niður að hún sveimaði í 2ja km hæð í korter meðan verið var að rýma gatnamót nærri sem lendingarpall. Þvílíkar aðfarir hef ég aldrei séð – en jæja, niður kom þyrlan og kallinum var flogið á sjúkrahús þar sem hann eyddi 4 klst í súrefnistjaldi.

Við ókum bílnum 150 km til Cardiff og settum nútt púst og upphengjur  – og þá var hann klár í keppni. Um kvöldið stoppaði leigubíll á þjónustusvæðinu og út steig gulur Andrew Sankey. Kallinn hafði bókað sig út af spítalanum þvert á vilja læknanna. Hann fékk að borða og var svo ekið á hótelið um áttaleytið þar sem hann lagðist til hvílu. Nóttinni eyddi ég í að gefa honum reglulega að drekka og á dauða mínum átti ég von en ekki að hann stæði upp um morgunin, vekti mig og sagði „we have to go, we are due out 8:18“.Eftir langa sannfæringarræðu um að hann treysti sér aftur í bílinn tókum við ákvörðun um að halda áfram og klára það sem við byrjuðum á J  Þetta var sennilegasta vitlausasta ákvörðun í heimi því eftir að hafa fengið 20mín refsingu þá vorum við aftast á merinni og ekki nokkur leið að halda í við hraða þeirra sem voru hálftíma á undan okkur á veginum. Þetta er svona eins og að keppa í spretthlaupi – nema keppinautar þínir eru allir á hlaupabrautinni en þú þarft að sætta þig við sandgryfjurnar við hliðiná! 
194 7973
 
194 7966

Frekar bólgin áhöfn eftir púst innöndunina 

Þessi keppnisdagur gekk ekki heldur vel, frekar en dagurinn á undan. Á leið 9 fór í sundur bremsuslanga að aftan og við ókum þá leið algerlega bremsulausir. Því var kippt í liðinn og áfram var haldið. Á leið 10 ókum við ansi fast með hægra framhjól á risastein sem óprúttnir áhorfendur höfðu komið fyrir í hægra hjólfarinu – sáust helvítin glottandi uppúr runna nærri en fjöðrun bílsins tók þetta og eina sem gerðist var að stýrið sneri ca 5gráður vitlaust eftir þetta. Í lok leiðarinnar skoðaði ég bílinn og sá ekkert að þannig við óðum inn á leið 11 og allt gekk að óskum – en á ferjuleið að leið 12 þá skyndilega hrökk stýrisendinn hægra megin í sundur og bíllinn eins og útskeif kú út á miðjum vegi.  
194 9363
 
194 9363

"stýrisendinn" fíni sem ég smiðaði útí skógi og ók 220 km til Cardiff á

Þarna var komið myrkur og við í rassgati alheimsins inn í skógi, ekkert símasamband, engir varahlutir og ekki sálu að sjá neinstaðar. Eftir miklar pælingar var tekinn íslenska leiðin á þetta: Tvær krafttangir voru í verkfæratöskunni sem við höfðum meðferðist og einn 8mm lykill – ásamt nokkrum plastbendslum. Þá er bara að smíða sér stýrisenda ala Ísland J   við treystum þó þessari viðgerð ekki um síðustu sérleið dagsins þannig við skiluðum inn tímakorti okkar of fengum 10mín refsingu fyrir að klára ekki þessa lokaleið dagsins. Bílnum var ekið til Cardiff á stýrisendanum fína og nýr settur í bílinn – þá var hann klár í keppni.

Liðið fundaði um kvöldið um áframhaldið og niðurstaðan var sú að keyra lokadaginn þrátt fyrir að vera með þeim allra síðustu í keppninni – en þó aðeins fulla ferð og að við skyldum gera okkar besta til að sýna klærnar miskunarlaust og reyna að klukka inn góða tíma. Bíllinn var í algjöru toppstandi og ekkert átti að vera okkur að vanbúnaði að sækja – en þegar við settum í gang á sunnudagsmorgun þá fór vökvadæla fyrir drif bílsins ekki í gang og enginn tími til að finna út hvað ylli þessu. Örlög okkar voru bara þessi því ef þessi ágæta dæla virkar ekki þá virka engar driflæsingar bílsins og raunar tíu sinnum erfiðara að keyra bílinn og aldrei hægt að ná góðum tímum svona.

Þessi frábæri bíll sem ekki hafði slegið feilpúst frá upphafi svo segja megi (öll vandræði okkar voru ekki bílnum að kenna) sveik okkur á lokadegi rallsins – og það sem meira er, það nægði að endurræsa stjórntölvu drifanna með einni einfaldri skipun til að allt færi að virka á ný en það gátum við ekki gert fyrr að rallinu loknu því ekkert þjónustuhlé var á lokadeginum.

195 0800
 
195 0813

Endamark rallsins og ekkert verið að fela upprunann :)   

Allaveganna - örmagna eftir þessa griðarlöngu keppni kláruðum við allar leiðir sunnudagsins og enduðum í 41 sæti yfir heildina af þeim 78 sem lögðu af stað í keppnina. Í endamarki var sem allt hefði gengið eins og í sögu því stolt okkar var mikið að hafa komist alla leið og hávær stuðnings og samúðarköll áhorfenda í endamarki réttu úr baki okkar og bætti á augabragði fyrir öll vonbrigðin sem við höfum upplifað undanfarna daga. Íslenski fáninn var dreginn upp við lófatak og samkennd viðstaddra var augljós – enda á flestra vitorði lífsreynsla okkar í þessari keppni.   Að fara í svona keppni væri ógjörningur ef ekki væri fyrir samtaka átak fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga. Af ótta við að gleyma einhverjum kýs ég að telja ykkur ekki upp – en þið vitið hver þið eruð og megið vita að ég er klökkur af þakklæti og hlýju til ykkar. Þið eruð hetjurnar mínar og verður aldrei gleymt. 

TAKK Hver einasti haus í stuðningsmannahópnum – TAKK fyrir að fylgjast með og hjálpa til með áhuga ykkar!

Ég hef 7 daga til að afla fjár fyrir næsta stórævintýri – IRC – Rally of Scotland sem fer fram í enda nóvember. Þangað stefnum við ótrauð og sennilega með 100% íslenskri áhöfn í þetta sinn. Ég vona að þið haldið áfram að styðja í huga og verki!

Kveðja / Danni

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elvar Örn Reynisson

Skemmtileg lesning

Elvar Örn Reynisson, 30.10.2009 kl. 22:22

2 identicon

jahérna, ég held ég hugsi mig tvisvar um áður en ég kaupi mér Evo 10 úff ... En til hamingju með að klára eftir allt, það er viss sigur útaf fyrir sig.

Jónbi

jónbi (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 01:11

3 Smámynd: Akstursíþróttakappinn Daníel Sigurðarson

Takk fyrir það Strákar.

 Já Jónbi, hugsaðu þig vel og lengi um - Er toyota twin cam ekki bara málið fyrir þig, bilar aldrei og mokast áfram! :)

Akstursíþróttakappinn Daníel Sigurðarson, 31.10.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: GK

Frábær pistill...

GK, 31.10.2009 kl. 11:23

5 Smámynd: Team Yellow

Til hamingju Danni, þrátt fyrir allt var frammistaðan góð.

Team Yellow, 31.10.2009 kl. 11:48

6 identicon

Það má pottþétt deila lengi um hvort Twin Cam mokist áfram, en það væri líklega það skynsamlegasta sem hægt væri að gera í dag, eða bara Trabant og láta skynsemina ráða

 jónbi

jónbi (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 14:07

7 identicon

Það er nú afrek að klára svona keppni, miðað við það sem ég hef séð þá voru aðstæður alveg hrikalegar, til hamingju með að klára Danni. Og svo ætlar þú að stefna á IRC það væri nú gaman að sjá þig þar ég vona að það takist.

Það væri nú samt gaman að sjá Jónba á Twin cam að keppa á móti Hlölla, eftir að hafa farið með honum í sumar þá get ég staðfest það að Twin cam mokast EKKI áfram en það er samt nóg að gerast!

Kv Boggi

Boggi (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 15:17

8 identicon

Frábær grein!!. Til hamingju Danni og co með að klára þetta gríðarlega erfiða rall.  Danni hefur örugglega fengið jafn mikla reynslu af þessu ralli og öllum keppnum sem hann hefur tekið þátt í á Íslandi!!.  Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu..

Kveðja / Dóri.

Halldór Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 17:48

9 identicon

Frábær lesning og mikið afrek að vanda frá þessu frábæra liði en það er um að gera að koma sér í IRC og rústa því ;) til lukku allir þetta var frábært hjá ykkur að halda haus og klára.

Bestu kveðjur Árni 

Árni Jónsson (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 18:12

10 identicon

til hamingju Danni!

Tjörvi Skarphéðinsson (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 20:29

11 Smámynd: Steini Palli

Flott grein og gaman að heyra það sem gekk á í raun og veru (ekki alltaf sem bestar upplýsingar sem skila sér til mín) og til lukku með að ná í gegn. Mikið haft fyrir þessu og mikil reynsla í bankann (Ekki þessa íslensku vonandi!).

Gangi þér sem allra best að komast í Skoska rallið og "ef" allt tollir saman þá er ljóst að þú getur strýtt ansi mörgum í IRC.

Baráttukveðjur af kantinum, Steini Palli

Steini Palli, 2.11.2009 kl. 11:47

12 Smámynd: Akstursíþróttakappinn Daníel Sigurðarson

Takk strákar :)


Gaman að fá kveðju frá þér Tjörvi - wery wery long time no see!

Steini - ég las greinarnar þínar og þakka þér kærlega fyrir. Þú vonandi afsakar hversu lítið ég náði að koma af upplýsingum til þín meðan á keppninni stóð og skilur kannski eftir ritgerðina hér að ofan hvers vegna ;)

Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að segja alla söguna eins og hún var - þar sem mér þykir hún frekar óhugnarleg - en að hvatningu lukkudísanna þá var hún gerð opinber.

Kveðja / Danni

ps. það eru engin EF í minni orðabók - bara full ferð og engar bremsur. Ég ber enga virðingu fyrir keppinautunum eftir að hafa kynnst óláns drottningunni (sem hefur verið sturtað niður um klósettið! )

Akstursíþróttakappinn Daníel Sigurðarson, 2.11.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband